Innlent

Iðgjöld lækkuð með ökuritum

Innan skamms mun ökumönnum verða gert kleift að lækka iðgjöld ökutækja sinna með notkun svokallaðra svartra kassa. Svarti kassinn er tilraunaverkefni VÍS sem fer af stað í sumar. Svarti kassinn er ökuriti sem skráir meðal annars hraða, aksturlag og staðsetningu ökutækis. Þessar upplýsingar eru síðan sendar með sjálfvirkum hætti í gagnagrunn VÍS og ef ökulag bílstjóra uppfyllir þær kröfur sem fyrirtækið setur um skynsamlegan akstur lækka iðgjöld viðkomandi. Ásgeir Baldurs, forstöðumaður viðskiptaþróunar VÍS, segir of snemmt að segja til um hversu háar fjárhæðir ökumenn geta sparað þar sem lítil reynsla sé komin á tilraunina. Hann kveðst líka ómögulegt að segja til um það áður en á reynir hvort um dýra þjónunstu sé að ræða. Núna kosti kassinn um 6.300 kr. á mánuði sem sé kostnaður sem þurfi að ná niður til að gripurinn geti orðið almenningseign en verið er að leita leiða til þess. Tækið er þó ekki algerlega nýtt hér á landi en VÍS hefur prófað þessa tækni í samstarfi við nokkur fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Ásgeirs hefur sú tilraun gengið ágætlega því tjónatíðni fyrirtækjanna hafi minnkað. En hvað skyldi persónuvernd segja við því að tæki sem þetta sé á markaði? Ásgeir svarar því til að allir sem noti kassann geri það af fúsum og frjálsum vilja - það sé lykilatriði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×