Erlent

Bílsprengjur í Bagdad

Hryðjuverkamenn létu sem fyrr að sér kveða í Írak í gær en þá fórust 22 í tveimur bílsprengjuárásum í Bagdad. Áströlskum gísl hefur verið hótað lífláti kalli Ástralir ekki hersveitir sínar heim á næstu dögum. Sprengjuárásirnar tvær áttu sér stað á Tahrir-torgi í miðborg Bagdad en þar er jafnan saman kominn talsverður fólksfjöldi til að versla. 22 fórust í sprengingunni, þar af tveir Bandaríkjamenn en auk þess slösuðust 35 manns. Á meðal hinna særðu voru telpur á leið í skólann. Bílar og hús eyðilögðust í sprengingunni, sum urðu eldi að bráð. Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra tilkynnti í gær að sátt hefði náðst um það hverjir settust í þá fimm ráðherrastóla sem eftir átti að skipa í, svo og um embætti varaforsætisráðherranna tveggja. Óstaðfestar fregnir herma að súnníinn Saadoun al-Duleimi verði varnarmálaráðherra en sjíinn Ibrahim Bahr al-Uloum verður olíumálaráðherra. Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sýndi í gær myndir af ástralska gíslinum Douglas Wood. Uppreisnarmenn miðuðu að honum byssum og sögðu að Ástralir fengju 72 klukkustunda frest til að kalla herlið sitt heim frá Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×