Innlent

Hjólar frá Seltjarnarnesi

Keppnin „Hjólað í vinnuna“ hófst í dag og er henni ætlað að vera hvatning til að fá fólk til að nota eigin orku til að ferðast til og frá vinnu. Ekki þurfa þó allir hvatningu en einn starfsmaður Stöðvar 2 hefur hjólað í vinnuna frá Seltjarnarnesi í nokkur ár. 3100 keppendur frá 244 vinnustöðum voru skráðir í keppnina í hádeginu í dag. Nú strax er því ljóst að þátttökumetið mun falla í ár en þetta er þriðja árið sem keppnin er haldin. Hún mun standa til 13. maí. Hjörleifur Sveinbjörnsson, starfsmaður Stöðvar 2, hjólar ýmist aðra eða báðar leiðir í vinnuna sem eru hátt í tólf kílómetrar hvora leið. Hann segir vindátt ráða mestu um hversu langan tíma ferðin tekur en í mótvindi er hann um 45 mínútur á leiðinni. Hann segist heldur betur geta nýtt sér hjólreiðastígana því hann þurfi aðeins að fara yfir götu eins og einu sinni. Hjörleifur er ekki hrifinn af höfuðfötum en notar alltaf hjálm þegar hann hjólar. Hann byrjaði á því þegar hann heyrði af alvarlegum hjólreiðaslysum fyrir nokkrum árum því fullorðinn maður eins og hann sé fyrirmynd fyrir krakka, hvort sem manni líki betur eða verr. Ef hann myndi ekki nota hjálm úti í umferðinni væru það skilaboð til krakka að þau megi það líka. Hjörleifur segist ekki strita við að fara á hjólinu alla daga - ef það er ófært þá bara er ófært. Það séu hins vegar ekki margir dagar á ári sem ekki sé hægt að hjóla. Og hann tekur fram að hann komi alltaf við í Árbæjarlauginni þegar hann komi hjólandi í vinnuna, af tillitssemi við vinnufélagana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×