Erlent

Blair verst nýjum Íraksásökunum

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, gerði í gær lítið úr því sem fram kemur í minnisblaði sem lekið hefur verið til fjölmiðla og er nýjasta dæmið um slíka leka í aðdraganda þingkosninganna 5. maí. Innihald minnisblaðsins má skilja þannig að Blair hafi í júlí 2002 verið farinn að velta fyrir sér hvernig hægt væri að réttlæta innrás í Írak - átta mánuðum áður en Íraksstríðið hófst. Að því er greint er frá á fréttavef breska útvarpsins BBC einblíndu íhaldsmenn og frjálslyndir eins mikið og raun bar vitni á Íraksmálið "vegna þess að þeir hafa ekkert raunverulega af mörkum að leggja" um önnur mál. Michael Howard, leiðtogi Íhaldsflokksins, sakaði forsætisráðherrann um að blekkja ríkisstjórnina og þingið í aðdraganda stríðsins. Innihald minnisblaðsins var birt í Sunday Times, en samkvæmt því sem þar er fullyrt var það skráð hinn 23. júlí 2002 af Matthew Rycroft, fyrrverandi utanríkispólitískum ráðgjafa Blairs, í kjölfar fundar Blairs með utanríkisráðherranum, varnarmálaráðherranum og ríkislögmanni. Þar er haft eftir Straw utanríkisráðherra að George W. Bush Bandaríkjaforseti væri "búinn að ákveða að grípa til þess að beita hervaldi [gegn Írak], jafnvel þótt tímasetningin væri ekki ennþá ákveðin". Réttlætingin fyrir því væri þó hæpin, nema meira kæmi til. Í minnisblaðinu segir svo: "Saddam ógnar ekki grannríkjunum og geta hans til að framleiða gereyðingarvopn er minni en Líbíu, Norður-Kóreu eða Írans. Við ættum að gera áætlun um að setja Saddadm afarkosti til þess að vopnaeftirlitsmenn SÞ komist aftur til Íraks. Þetta myndi hjálpa við lagalega réttlætingu valdbeitingar." Blair lagði á það áherslu í morgunsjónvarpsþætti BBC að ákvörðunin um valdbeitingu hefði ekki verið tekin þegar umræddur fundur fór fram. Sir Menzies Campbell, talsmaður frjálslyndra demókrata í utanríkismálum, sagði að það hefði alltaf verið markmiðið að steypa Saddam; talið um gereyðingarvopn hefði aldrei verið annað en yfirvarp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×