Innlent

Urðað fyrir utan Sorpu

"Við erum að finna allt mögulegt fyrir utan stöðina þegar við komum í vinnuna," segir Andrés Garðarsson starfsmaður Sorpustöðvarinnar í Seljahverfi. Þegar hann kom til vinnu sinnar í fyrradag beið hans þrjúhundruð fermetra teppi sem óprúttnir menn höfðu skilið þar eftir til að komast hjá útgjöldum. Þannig spöruðu þeir sér fimmtánhundruð krónur en starfsmenn Sorpu áttu í miklu basli með að koma teppinu í gám. Starfsmennirnir eru þó ýmsu vanir því ekki er óvanalegt að þeir finni þvottavélar, ísskápa og eldavélar fyrir utan stöðina. "Maður kemur til vinnu með hnút í maganum og spyr bara hvað bíði manns í dag," bætir Andrés við. Endrum og sinnum kemur það líka fyrir að viðskiptavinir hreyti ónotum í starfsmenn og jafnvel hótunum. Þessu hefur Sorpa brugðist við með því að bjóða starfsmönnum sínum upp á námskeið hjá sálfræðingi. "Þetta er einskonar áfallahjálp," segir Andrés sem segir viðskiptavini Sorpu þó almennt góða. "Þetta er enginn ruslaralýður," bætir hann við og hlær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×