Innlent

Friðargæsluliðarnir fá ekki bætur

Íslensku friðargæsluliðarnir, sem særðust í sprengjuárás í Kjúklingstræti í Kabúl í Afganistan í fyrra, fá ekki bætur frá Tryggingastofnun. Ástæðan er sú að þeir voru ekki í vinnunni þegar ráðist var á þá. Einn friðargæsluliðanna segist hafa talið sig vera í vinnunni alla dvölina. Arnór Sigurjónsson, yfirmaður friðagæslunnar, segir svar Tryggingastofnunar fyrst og fremst vera lögfræðilegt álit Tryggingastofnunar og að endanleg niðurstaða eigi eftir að fást. Hann segir ágreiningsatriði hvort mennirnir hafi verið við vinnu. Sverrir Haukur Grönli, einn friðargæsluliðanna, er ekki ánægður með svar Tryggingastofnunar. Hann segir boltann nú vera í höndum þeirra sjálfra; þeir þurfi að koma því betur til skila við yfirmenn friðargæslunnar að þeir hafi verið við störf þegar árásin var gerð því greinilega hafi verið gefið út af þeirra yfirmönnum að þeir hafi ekki verið í vinnunni, daginn örlagaríka. Sverrir Haukur segist hafa haldið að hann væri í vinnunni frá því hann flaug frá Íslandi og þar til hann lenti aftur á landinu. Sverrir Haukur segir málið vera í ákveðnum farvegi og ekki liggi endalega fyrir hvernig því muni ljúka. En aðspurður segir hann alveg klárt að þeir hafi farið til að fylgja sínum yfirmanni. Hann hafi verið á vakt þegar hann var beðinn um að fara í verkefnið og hann hafi ekki verið í „túristaleik“ niðri í miðbæ Kabúl. Íslenska friðargæslan hefur auglýst eftir slökkviliðs- og lögreglumönnum til að fara á vegum gæslunnar til að sinna störfum í vestur og norður Afganistan. Til stendur að mennirnir fari til Noregs í þjálfun í ágúst og að hver verði í fjóra mánuði en um fjörutíu menn munu fara í heildina. Óskar Bjartmarz, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði í samtali við fréttastofuna fyrir skemmstu að félagið hefði í hyggju að fara yfir samningsmál sinna manna, ef og þá áður en þeir færu til Afganistan, og taldi hann tryggingamál vera eitt af því sem fara þyrfti yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×