Innlent

Ofbeldismönnum sýnt rauða spjaldið

Mótmæli eru ráðgerð á Ráðhústorgi Akureyrar næstkomandi föstudag þar sem bæjarbúar sýna ofbeldismönnum rauða spjaldið. Ragnar Hólm Ragnarsson, kynningarfulltrúi Akureyrabæjar, segir bæjarbúa vera mjög reiða vegna atburða sem áttu sér stað um síðustu helgi þegar sautján ára piltur var keyrður upp á heiði og skotið á hann úr loftbyssu. Ljóst þykir að þar hafi handrukkarar verið að innheimta fíkniefnaskuld. Mennirnir tveir sem áttu hlut að máli ganga nú lausir en þeir voru báðir á skilorði. Ragnar segir ungt fólk í bænum hafa komið að máli við sig með hugmyndir um mótmæli sem lýsi andstyggð bæjarbúa á þessum verknaði og ákvað Akureyrarbær að standa að mótmælunum með unga fólkinu. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri segir nauðsynlegt að fá unga fólkið í lið með sér því það hafi lítið að segja fyrir bæjaryfirvöld að standa ein að slíkum mótmælum. Ragnar segir ofbeldisverkin koma illa við þá fjölskyldustefnu sem höfð hefur verið í heiðri. Hann segir mikinn óhug í fólki yfir atburðinum og það vilji ekki láta svona líðast í fjölskyldu- og skólabænum Akureyri þar sem fólk eigi að njóta allra lífsins gæða. Mótmælin verða á Ráðhústorgi næstkomandi föstudag klukkan fimm. Þar verður rauðum dómaraspjöldum útbítt til viðstaddra og þeim haldið á lofti. Ragnar vonast til að sjá nær alla bæjarbúa á staðnum, um sextán þúsund manns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×