Innlent

1.400 á hverja bensínstöð

Þjónustustöðvum olíufélaganna hefur fjölgað nokkuð að undanförnu og nú er svo komið að það er ein bensínstöð fyrir hverja 1.418 Íslendinga. Í vikunni opnaði Atlantsolía sjálfsafgreiðslustöð fyrir dísilolíu á Akranesi og segir Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri fyrirtækisins að þetta marki upphaf útrásar þess á landsbyggðinni. Á landsbyggðinni eru þó mun færri íbúar á hverja bensínstöð en á höfuðborgarsvæðinu, ein þjónustustöð frá olíufélögunum fyrir hverja 719 íbúa. Vestfirðir eru sá landshluti þar sem markaðurinn er einna þéttast setinn en þar eru 385 íbúar um hverja stöð en á Vesturlandi eru þeir tæplega 600. "Því fer fjarri að markaðurinn sé mettaður ef þjónustunni er komið fyrir á hagkvæman hátt," segir Hugi. Hann segir framgöngu Atlantsolíu vera fagnaðarefni fyrir neytendur. "Ef Atlantsolíu nyti ekki við væri verð á bensíni og dísilolíu um sex til átta krónum hærra og þetta er sparnaður fyrir þjóðfélagið upp á svona 600-800 milljónir króna," bætir hann við og segir frekari fjölgun stöðva vera í uppsiglingu. Með opnuninni á Akranesi lýkur 40 ára sögu þar sem einungis þrjú félög kepptu sín á milli á Vesturlandi. Margrét Guðmundsdóttir markaðsstjóri Skeljungs segir að mönnum þar lítist bara vel á samkeppnina en engra sérstakra viðbragða væri að vænta af þeirra hálfu. "Þó fari nú ein dísildæla upp á Akranes þá kallar það kannski ekki á stór viðbrögð. En við fylgjumst vel með öllum breytingum á markaðnum," segir Margrét. Hún bendir á að víðast í Evrópu er talið skynsamlegt að það séu 5.000 íbúar á stöð, þótt víðsvegar væru þeir 10.000. Hún er því afar ósammála Huga og segir að íslenski markaðurinn sé mjög mettur. Hún segir fjölgun bensínstöðva hér á landi vera þróun sem sé á skjön við það sem gerist í nágrannalöndunum en í Danmörku hefur til dæmis verið í umræðunni á síðustu mánuðum að fækka þeim um fjögur hundruð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×