Innlent

Mótmælin komu of seint

Mótmæli vegna fyrirhugaðs niðurrifs gamla Mjólkursamlagsins í Borgarnesi koma of seint, segir Páll S. Brynjarsson, bæjarstjóri í Borgarbyggð. "Það er ekki búið að ákveða hvenær húsið verður fjarlægt en við stefnum að því að fjarlægja það," segir Páll. "Skipulagið fyrir gamla miðbæinn hefur verið samþykkt. Búið er að auglýsa það og lauk því fyrir þremur vikum. Á auglýsingatíma skipulagsins voru aðeins fjórir sem mótmæltu því að húsið yrði fjarlægt." Sjötíu mættu á fund hollvina gamla Mjólkursamlagsins í húsinu á miðvikudaginn og rituðu 54 þeirra undir áskorun til bæjaryfirvalda um að stuðla að varðveislu byggingarinnar. "Húsið hefur mikið byggingar- og menningarsögulegt gildi fyrir Borgarbyggð, héraðið og landið allt. Undanfarið hefur húsið reynst vel sem menningar- og samkomuhús og er vel til þess fallið að verða lifandi kjarni í gamla miðbæ Borgarness," stendur í áskoruninni. Húsið er byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, fyrrum húsameistara ríkisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×