Innlent

Vefmyndavél vekur athygli

Persónuvernd hefur veitt leyfi fyrir vefmyndavél í Bolungarvík en henni geta notendur stjórnað og fylgst með lífinu í höfninni og nágrenni hennar. Það kostar ekkert að nota vélina og áhuginn er mikill. Tölvubréf hafa borist frá Bandaríkjunum, Kína og Japan frá fólki sem hefur verið að skoða bæinn í gegnum vélina. Þeir sem fara inn á vefsíðuna fara í biðröð og geta stýrt vélinni á alla kanta þegar röðin kemur að þeim. Haukur Vagnsson myndavélastjóri segir að hægt sé að skoða mannlífið og það sem gerist í kringum hafnarsvæðið í Bolungarvík í gengum Netið. Með því að fara á vefsíðuna webcam.is er hægt að skoða bæinn og fylgjast með lífinu á höfninni en Persónuvernd hefur gefið leyfi fyrir notkun vélarinnar. Hún er notuð til margra hluta. Haukur segir að maður einn sem búi beint á móti þeim stað þar sem vélin hafi verið prufukeyrð hafi farið út að veifa í vélina að ósk sonar síns í Noregi sem hafi viljað sanna fyrir vinnufélögum sínum að hann gæti haft áhrif á það sem gerðist á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×