Innlent

Samrýmist stefnu skólans

Háskólinn í Reykjavík hefur tekið ákvörðun um að þiggja lóðina í Vatnsmýrinni og segir rektor staðsetninguna samrýmast stefnu skólans. Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri Garðabæjar segist sátt og óskar skólanum velfarnaðar. Ákvörun um lóðavalið var tilkynnt samtímis í Háskólanum í Reykjavík og í Tækniháskólanum klukkan þrjú í dag. Guðfinna Bjarnadóttir, rektor skólans, var ánægð með ákvörðunina þegar fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við hana í dag. Hún segir að háskólaráð hafi komist að þessari niðurstöðu samhljóða. Valið hafi verið ígrundað á fjölmörgum þáttum og að ráðgjafarfyrirtæki hafi verið fengið til að aðstoða við mat á valkostunum tveimur. Guðfinna segir nafn skólans ekkert hafa haft með valið að gera. Fljótlega verður hafist handa við hönnun skólans en stefnt er að því að hefja framkvæmdir í lok árs 2006. Haustið 2008 á starfsemi skólans að fara af stað í nýrri byggingu. Guðfinna segir að fyrst og fremst sé talið að það styðji mjög við stefnu Háskólans í Reykjavík, sem sé ætlað að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, að velja Vatnsmýrina. Þar sé tækifæri til að byggja upp Kísildal. þ.e. þekkingarsamfélag sem nágrannaþjóðirnar séu þegar langt á veg komnar með að byggja upp. Þar séu samlegðaráhrifin mikil og reiknað verði með að háskólinn starfi með rannsóknarstofnunum og háskólum á svæðinu. Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, segir eina af ástæðunum fyrir því að Háskólanum í Reykjavík hafi verið boðin lóð þá að tryggja skólanum val. Hún segist aðspurð ekki vera svekkt yfir ákvörðun skólans heldur vilji hún óska honum til hamingju með staðarvalið og hún voni að undirbúningurinn og uppbyggingin gangi vel. Auðvitað hefði hún frekar kosið að fá skólann í Garðabæ en þar sé fram undan mikil uppbygging og mikil eftirspurn eftir lóðum og starfsemi í Urriðaholti. Því verði haldið áfram og unnið með þeim sem séu að búa sig undir að koma á svæðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×