Innlent

Þétt dagskrá hjá forsetahjónunum

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú komu í opinbera heimsókn til Akureyrar í morgun. Eftir móttökuathöfn á Akureyrarflugvelli tók við þétt dagskrá þar sem forsetahjónin kynntu sér meðal annars nokkrar af helstu menntastofnunum bæjarins. Verkmenntaskólinn á Akureyri var fyrsti viðkomustaður forsetahjónanna. Þar ávarpaði forsetinn nemendur sem sýndu atriði úr sameiginlegum söngleik framhaldsskólanna í bænum. Þá var ferðinni heitið til barnanna í leikskólanum á Iðavöllum þar sem Dorrit brá á leik með börnunum. Hádegisverður var snæddur á Öldrunarheimili Akureyrarbæjar og háskólinn heimsóttur. Ólafur Ragnar sagði við það tilefni að hann teldi að háskólinn hefði gífurlega möguleika á komandi árum að eflast og styrkjast. Hann gæti tekið að sér að mennta fólk víða að úr veröldinni gegn greiðslu og þannig skapað grundvöll fyrir gjaldeyrisöflun og auknar þjóðartekjur. Hann sagðist reikna með að fulltrúar frá háskólanum kæmu með honum í opinbera heimsókn til Kína eftir fáeinar vikur og vonandi yrði þar lagður grundvöllur að samstarfi sem gæti leitt til þess að háskólinn yrði eins konar útflutningsstöð á menntun. Ólafur Ragnar var ánægður með söngleikjaatriði framhaldsskólanemanna, verkið væri frumsamið og glæsilega flutt. Unga kynslóðin í framhaldsskólunum væri hæfileikaríkari og áræðnari en hann og hans kynslóð hefði verið og það yrði einfaldlega að viðurkenna. Forsetahjónin enduðu daginn í Íþróttahöllinni klukkan átta í kvöld þar sem bæjarbúum var boðið á skemmtikvöld. Fyrirtæki á Akureyri verða heimsótt á morgun en Eyjarfjarðarsveit tekur á móti forsetanum á miðvikudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×