Innlent

Flokkspólitík hlaupin í málið

Borgaryfirvöld hafa sem kunnugt er boðið Háskólanum Í Reykjavík framtíðarlóð undir starfsemi sína á umræddu svæði í nágrenni Reykjavíkurflugvallar en Garðbæingar hafa líka hug á að fá Háskólann til sín og hafa boðið fram lóð í því skyni. Í könnun Gallups voru rúmlega 1300 einstaklingar í Reykjavík á aldrinum 16-75 ára spurðir hvort þeir vildu að Háskólinn í Reykjavík fái að byggja á svæðinu eða hvort það verði þróað áfram sem útivistar- og afþreyingarsvæði. Sem fyrr segir sögðust 73 af hundraði svarenda vilja nýta svæðið sem útivistarsvæði frekar en að þar verði byggt. Nokkur munur er á afstöðu kynjanna í þessum efnum en 80 prósent kvenna eru hlynnt útivistarsvæði þarna en 67 prósent karla. "Mér finnst spurningin í þessari könnun mjög gildishlaðin og markmiðið greinilega að fá fram ákveðna niðurstöðu", segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri. Hún segir bullandi flokkspólitík greinilega hlaupna í þessa umræðu og að ýmsir áhrifamiklir Sjálfstæðismenn séu augljóslega staðráðnir í að koma Háskólanum í Reykjavík til Garðabæjar, hvað sem það kosti. "Skýringin á þessu er einfaldlega sú að þar eru stjórnvöld sem eru Sjálfstæðisflokknum þóknanleg", segir borgarstjóri. Kristrún Lind Birgisdóttir hjá Tíkin.is segir vissulega mega deila um orðalag spurningarinnar. "Það sem við leggjum áherslu á með þessari könnun er að við viljum að hlustað sé á raddir borgarbúa í þessu máli og lítum svo á að könnunin leiði vilja þeirra til þess ótvírætt í ljós", segir hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×