Innlent

Flugmálastjórn hlutafélagavædd?

Flugmálastjórn Íslands verður hlutafélagavædd ef tillögur ráðherraskipaðrar nefndar um framtíðarskipan flugmála ná fram að ganga. Tillögur nefndarinnar hafa verið kynntar í ríkisstjórn. Samkvæmt tillögum nefndarinnar er lagt til að þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar verði gerð að hlutafélagi, þ.e. rekstur flugumferðarþjónustu og rekstur flugvalla hér á landi. Þá er lagt til að flugöryggiseftirlit og stjórnsýsla stofnunarinnar verði áfram rekin sem ríkisstofnun en þó með auknum sveigjanleika. Í skýrslu stýrihópsins er fjallað um aukna samkeppni í flugumferðarstjórn og nauðsyn þess að stjórnsýsla í flugmálum verði gegnsæ. Í tengslum við kröfur frá Alþjóðaflugmálastofnuninni og nýjar reglugerðir Evrópusambandsins um góða stjórnsýsluhætti er lagt til að stofnuninni verði skipt upp. Það er mat stýrihópsins að bregðast þurfi hratt við og að íslenskri flugmálaþjónustu verði sköpuð skilyrði til að takast á við aukna samkeppni. Að öðrum kosti sé hætta á að Alþjóðaflugþjónustan hverfi úr landi. Samgönguráðherra hefur ekki enn tekið afstöðu til tillagna stýrihópsins en málið var kynnt í ríkisstjórn fyrir stuttu. Þorgeir Pálsson flugmálastjóri fagnar tillögum stýrihópsins og segir að þær séu til þess fallnar að auka samkeppnishæfni stofnunarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×