Innlent

Sjúkrahúsið fékk ekki að taka þátt

Yfirlæknir Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað er ósáttur við að sjúkrahúsið tók ekki þátt í stóru slysavarnaæfingunni sem fram fór á Austurlandi um helgina. Hann segir fjórðungssjúkrahúsið vera eina bráðasjúkrahúsið á Austurlandi og starfsfólkið hefði getað lært mikið af æfingunni - hefði verið reiknað með því. Slysavarnaæfingu Landsbjargar lauk í gær og þótti heppnast afar vel. Björn Magnússon, yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, er þó ekki fyllilega ánægður. Hann segir sjúkrahúsið hafa verið í startholunum í allan gærdag til að taka þátt í æfingunni og m.a. undirbúið greiningarsveit, en enginn hafði samband. Björn segist ekki vita betur en sjúkrahúsið hafi verið inni í skipulagningu æfingarinnar. Hann kveðst ekki hafa skýringar á því að ekkert var haft samband við þau. Að sögn Jóns Gunnarssonar, formanns Landsbjargar, er skýringin á þessu sú að sá þáttur æfingarinnar sem fram fór í nágrenni Neskaupsstaðar hafi ekki verið umfangsmeiri en svo að ekki hafi verið þörf á greiningarsveit eða aðkomu annars heilbrigðisstarfsfólks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×