Innlent

Heimsmeistari í uppstoppun

Íslendingar hafa eignast heimsmeistara í uppstoppun fiska. Íslensku keppendurnir tveir komu til landsins í morgun. Við komuna til Bandaríkjanna, þar sem keppnin var haldin, eyðilögðu tollverðir uppstoppaða fugla annars þeirra.  Íslensku keppendurnir komu örþreyttir heim í morgun af heimsmeistaramótinu í uppstoppun, sem haldið var í Bandaríkjunum. Steinar Kristjánsson hlaut annað og þriðja sætið í opnum flokki fyrir fugla sína en Haraldur Ólafsson hampar nú heimsmeistaratitlinum í flokki atvinnumanna fyrir glæsilegan lax. Það sem dómararnir féllu fyrir var handbragðið á máluninni, lífleg stelling og hrósuðu þeir augum hans sérstaklega. Haraldur segir að á bak við sigurinn felist þolinmæði, vinna og að setja sér takmark - og ná því. Aðspurður hvort þetta breyti einhverju fyrir hann segir Haraldur það ekki vera svo hvað Ísland snerti en öðru máli gæti gegnt með önnur lönd. Hann hefur uppstoppun fiska að aðalstarfi og er nóg að gera að hans sögn. Steinar lenti í því að tollverðir í Chigaco rifu upp fuglana hans við komuna til Bandaríkjanna og hann fékk þá hálsbrotna, vængbrotna og alla vega. Steinar var hins vegar með öll leyfi í lagi. Og það var bót í máli að tveir dagar voru þá í keppnina og því tókst að koma fuglunum í sýningarhæft ástand í tæka tíð, en þeir eru þó að líkindum óhæfir til sölu, segir Steinar. Það voru á þriðja þúsund keppendur sem tóku þátt í mótinu, frá 22 þjóðlöndum, og því verður árangur þeirra félaga að teljast sérlega glæsilegur. Vinnan við að stoppa upp einn fisk tekur að minnsta kosti fjóra mánuði, og handmála þarf hverja einustu hreisturflögu. Haraldur segir það sífellt algengara að menn láti stoppa upp maríulaxa og stærstu fiskana sem þeir veiða - en af fuglunum er lundinn alltaf vinsælastur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×