Innlent

Ókeypis búslóðir

Tíminn er að renna út fyrir þá sem komu búslóðinni sinni einhvern tímann í geymslu í húsnæði að Skeifunni 5. Ef eigendurnir vitja ekki eigna sinna um helgina, verða þær gefnar.  Búslóðirnar eru nú geymdar á brettum í fyrrum húsnæði Fróða við Seljaveg á vegum Eikar - fasteignafélags. Ástæðan er einföld að sögn Vilhelms Patricks Bernhöfts hjá Eik: félagið keypti húsnæðið í Skeifunni og búslóðirnar fylgdu með. „Við höfum verið að reyna að hafa uppi á eigendum þessara búslóða og gengið frekar illa,“ segir Vilhelm.    Það kennir ýmissa grasa á brettunum: stólar, borð og rúm, sjónvörp, ísskápar og LP-plötur í bunkum, Nilfisk-ryksuga og bók um Mjallhvíti á norsku sem einhver hefur viljað geyma. Vilhelm segir Eik ekki hafa tekist að fá lista yfir eigendurna, ef hann er til, svo það var gripið til þess ráðs að auglýsa eftir þeim í blöðunum. Hann segir að um 20 manns séu búnir að ná í sitt dót og 15-20 búslóðir eftir. Hann vonast eftir því að þeirra verði vitjað; að öðrum kosti muni Eik koma þeim til góðgerðasamtaka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×