Innlent

Gjaldfrjálsir leikskólar heilsubót

Góð fjárhagsstaða bætir heilsuna. Hjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu segir gjaldfrjálsa leikskóla geta stuðlað að því að börn eigi jafnari möguleika á góðri heilsu. Fátækt, menntun og atvinna er meðal þeirra samfélagslegu þátta sem hafa mikil áhrif á heilsu fólks. Heilsa barna fer til dæmis mjög gjarnan eftir menntun foreldra. Félagslegir þættir voru umfjöllunarefni Önnu Bjargar Aradóttur, hjúkrunarfræðings hjá Landlæknisembættinu, á morgunaverðarfundi í tilefni af Alþjóðaheilbrigðisdeginum sem er í dag. Anna segir að fátækt sé staðreynd. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir hafi gert rannsóknir sem sýni að heilsufar barna sé mismunandi hér á landi eftir tekjum foreldra. Anna segir gjaldfrjálsa leikskóla geta verið tækifæri til að jafna aðstöðumun barna. Það geti verið ansi þungur baggi fyrir foreldra, sem eigi fleiri en eitt barn og séu jafnvel einstæðir eða í láglaunavinnu, að borga leikskólagjöld. Það geti hugsanlega þýtt að t.d. einstæðar mæður treysti sér ekki út á vinnumarkaðinn. Vitað sé að örorka sé vaxandi vandamál hér á landi og hugsanlega geti þetta verið ein skýringin á því, að tækifæri einstæðra mæðra til að fara út á vinnumarkaðinn takmarkist vegna þessa. Anna segir örorkubætur stundum vera leið til að lifa af. Það sé úrræði læknisins til að bæta hag einstæðrar móður eða fjölskyldu. Læknirinn einn og sér geti ekki breytt þjóðfélaginu heldur sé það allra að gera það þannig foreldrar þurfi ekki að lifa við þessar aðstæður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×