Innlent

Eyjafjörður verði eitt sveitarféla

Stærsta sameiningarkosningin, með tilliti til fjölda sveitarfélaga, sem fram fer í haust snýst um sameiningu níu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta kemur fram í tillögum Sameiningarnefndar sveitarfélaga sem lögð var fram eftir að nefndin hafði kynnt sér viðhörf stjórnenda sveitarfélaganna. Það eru íbúar Siglufjarðarkaupstaðar, Ólafsfjarðarbæjar, Dalvíkurbyggðar, Arnarneshrepps, Hörgárbyggðar, Akureyrarbæjar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps sem munu kjósa um sameininguna. Eftir stendur eitt sveitarfélag á Eyjafjarðarsvæðinu, Grímseyjarhreppur, sem mun ekki sameinast neinu öðru sveitarfélagi á svæðinu. Róbert Ragnarsson, verkefnisstjóri í Félagsmálaráðuneytinu, segir rökin fyrir því að undanskilja Grímseyjarhrepp sé landfræðileg fjarlægð frá öðrum sveitarfélögum á svæðinu. Í febrúar síðastliðnum kannaði Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri hug íbúa á Eyjafjarðarsvæðinu til stórsameiningar og kom í ljós að Grímseyingar höfðu lítinn áhuga á sameiningu og því allar líkur á að hún hefði verið felld þar. Róbert segir að til að sameining taki gildi þarf meirihluti íbúa í tveim þriðju sveitarfélaganna að samþykkja sameiningu og innan þeirra þurfa að búa að minnsta kosti tveir þriðju þeirra íbúa sem þátt taka í kosningunni. Því þarf meirihluti íbúa í sex af níu sveitarfélögum við Eyjafjörð að greiða atkvæði með sameiningu og í þeim sex sveitarfélögum verða að búa ríflega 15 þúsund manns af þeim 23 þúsundum sem búa á svæðinu. Akureyringar einir og sér eru um 70 prósent allra íbúa á Eyjafjarðarsvæðinu og samkvæmt viðhorfskönnun RHA er mikill meirihluti Akureyringa hlynntur sameiningu. Í sömu könnun kom fram að mikill meirihluti Siglfirðinga vill einnig sameiningu en naumur meirihluti er fyrir sameiningu í Ólafsfirði og Dalvíkurbyggð. Andstaða við sameiningu er meiri í dreifbýli Eyjafjarðar en ríflega helmingur íbúa Svalbarðsstrandarhrepps, Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar er gegn sameiningu en mest er andstaðan í Eyjafjarðarsveit og Grýtubakkahreppi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×