Innlent

Lyfjaskammtar auknir

Ríkisstjórnin tekur síðar í mánuðinum ákvörðun um hversu miklar lyfjabirgðir verða keyptar til landsins til forvarna og meðferðar við væntanlegum heimsfaraldi inflúensu eða fuglaflensunnar. Búast má við að varabirgðir verði auknar verulega, jafnvel svo að dugi fyrir allt að 25-30 prósent Íslendinga. Norðmenn og Finnar tekið ákvörðun um að vera með lyfjabirgðahald fyrir 25-30 prósent þjóðarinnar en Danir og Svíar hafa ekki tekið endanlega afstöðu ennþá. Bretar hafa ákveðið að vera með lyfjabirgðir fyrir 30 prósent þjóðarinnar. Ef Íslendingar ákveða að taka svipaða stefnu þá er ljóst að fjölga þarf lyfjaskömmtunum úr 10 þúsund upp í allt að 100 þúsund. "Menn ætla að auka viðbúnaðarstigið," segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. "Ég get ekki sagt hér og nú hvernig því verður háttað því að það er ekki búið að ákveða það en það er verið að hugsa mikið um það þessa dagana." Keyptir voru 7.000 meðferðarskammtar í varabirgðahald Íslendinga í fyrra. Fyrir eru 3.000 meðferðarskammtar til taks í landinu þannig að heilbrigðisyfirvöld eiga nú skammta fyrir 10 þúsund manns. Þetta hrekkur þó skammt ef faraldur breiðist út. "Það hefur verið inni í myndinni að auka þetta magn. Við erum einkum með hugann við sjálfan heimsfaraldur inflúensu sem getur komið hvenær sem er og með hvaða hætti sem er en við getum líka fengið fuglaflensu og þá þarf að verja þá sem eru að vinna við kjúklingana, lóga þeim og farga," segir Haraldur. Sóttvarnalæknir mun leggja tillögu um lyfjakaupin fyrir heilbrigðisráðherra sem síðan mun fá umsögn sóttvarnaráðs. Ríkisstjórnin tekur endanlega ákvörðun um magn og fjármögnun. Haraldur segir matsatriði hvað menn telji brýnt að hafa miklar birgðir. Hann kveðst ekki geta gefið upp hver kostnaðurinn verði. En þetta sé ekki ódýrt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×