Innlent

Vel sigldir Íslendingar

Mikið hefur verið fjallað um það, hve víðförull Jóhannes Páll páfi II var en hann ku hafa heimsótt hundrað lönd um ævina. Íslendingar þurfa ekki að leita í Vatíkanið að mönnum sem svo víða hafa farið, enda af víkingum og landkönnuðum komnir. Úr hópi víðförula eru þrír nefndir hér, þeir Árni Johnsen blaðamaður, Ingjaldur Hannibalsson prófessor og Ingólfur Guðbrandsson ferðafrömuður. Í bókinni Samtíðarmenn sem kom út fyrir 15 árum var nefnt í umsögn um Árna að hann hefði komið til 80 landa. Síðan þá hefur hann heimsótt yfir tuttugu ný lönd, því í samtali á dögunum sagðist hann hafa komið til yfir hundrað landa um ævina en vildi að öðru leyti ekkert meira um málið segja. Ingjaldur Hannibalsson sagði frá því í Fréttablaðinu nýlega að hann hefði komið til hátt í 120 landa. Fyrir vikið er Ingjaldur kallaður Fargjaldur af félögunum sínum í Háskólanum. Ingólfur Guðbrandsson hefur um langt árabil verið í fararbroddi í ferðaþjónustu á Íslandi og hefur að eigin sögn komið til enn fleiri landa en Ingjaldur. Hann hafði þó ekki tölu þeirra á reiðum höndum þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær en það er aldrei að vita nema mögulegt verði að upplýsa nákvæmlega um hve mörg lönd Ingólfur hefur heimsótt og kynnst um ævina einhvern næstu daga.
Ingólfur Guðbrandsson.MYND/GVA
Árni Johnsen.MYND/Pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×