Innlent

Til Afganistan með breytta jeppa

Tíu til fimmtán íslenskir friðargæsluliðar fara til starfa í Norður-Afganistan í ágúst. Þeir taka með sér tvo eða þrjá jeppa sem breytt verður hérlendis til að nota við þær erfiðu aðstæður sem eru á þessum slóðum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður sveitin vopnuð eins og íslensku friðargæslusveitirnar í Afganistan hafa verið og fer hún til þjálfunar í Noregi í maí eða júní . Þetta verkefni í Norður-Afganistan kemur í beinu framhaldi af stjórn íslensku friðargæslunnar á flugvellinum í Kabúl en henni lauk 1. febrúar síðastliðinn. Talið er víst að einhverjir þeirra Íslendinga sem gegndu þjónustu í Kabúl verði liðsmenn þessarar nýju sveitar. Verkefnið sem um ræðir felst í að aðstoða íbúa afskekktra fjallahéraða í Norður-Afganistan, en ástandið á þeim slóðum er afar bágborið og líf fólks frumstætt eftir margra áratuga stríðsástand. Þarna eru miklar vetrarhörkur með tilheyrandi vatnsskorti og matur er af skornum skammti. Fram til þessa hafa hjálparsveitir á svæðinu notast við óbreytta jeppa en þeir ekki reynst nógu vel enda landið mjög erfitt yfirferðar. Þess vegna var ákveðið að láta breyta nokkrum jeppum hérlendis fyrir sveitina enda Íslendingar sérfræðingar í að breyta jeppum til nota við mismunandi aðstæður. Reynist jepparnir vel er ekki útilokað að fleiri jeppum verði breytt hérlendis til nota fyrir friðargæsluna. Þrátt fyrir að lítið hafi verið um átök á þessum slóðum upp á síðkastið er talið nauðsynlegt að liðsmenn friðargæslusveita beri vopn sér til varnar og munu Íslendingarnir fá þjálfun í þeim efnum í Noregi eins og verið hefur um þær íslensku sveitir sem starfað hafa í Afganistan. Ekki náðist í forsvarsmenn íslensku friðargæslunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×