Innlent

Mikil ásókn í Lambaselslóðir

Nú hafa 3893 sótt um einbýlishúsalóð í Lambaseli í Breiðholti en 994 sóttu um í dag. Barist er um 30 lóðir og voru umsækjendur í dag misbjartsýnir á að verða dregnir út Umsóknir um lóðirnar 30 við Lambasel streymdu inn til framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar í dag enda fer hver að verða síðastur þar sem umsóknarfresturinn rennur út á morgun. Starfsfólk framkvæmdasviðsins hafði í nógu að snúast þegar fréttastofu Stöðvar 2 bar að garði í dag enda hafði umferð fólks farið vaxandi með hverjum klukkutímanum og er búist við enn fleira fólki á morgun. Fólksfjöldinn segir þó ekki allt um fjölda umsókna þar sem sumir skila inn allt að tíu umsóknum fyrir vini og vandamenn. Þóra Jónasdóttir, gjaldkeri á framkvæmdasviði, segir að fólk komi m.a. með umsóknir fyrir vinnufélaga og fjölskyldumeðlimi. Umsækjendur voru misbjartsýnir á að þeir hefðu erindi sem erfiði en sögðu líkurnar þó vera meiri en í lottóinu. Ágúst Ástgeirsson, einn umsækjenda, sagðist aðspurður pottþéttur á að fá lóð og að hann hefði hugsað sér að búa sjálfur í Lambaselinu. Sigríður Kristbjörnsdóttir, sem einnig var að sækja um lóð í Lambaseli, sagðist ekki bjartsýn en hún ætti þó möguleika eins og allir aðrir. Hún reiknaði með því að búa sjálf í Lambasel ef hún úr yrði dregin út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×