Innlent

2000 hitaeininga hamborgari

Hamborgari úr hálfu kílói af nautahakki er líklega fágæt sjón. Mangógrill í Brekkuhúsum bíður hins vegar upp á slíka hamborgara á matseðli og ef viðskiptavinurinn getur borðað hamborgarann, með frönskum, sósu og gosi á innan við tíu mínútum er máltíðin frí. Að öðrum kosti kostar slík máltíð 2490 krónur. Eigandi Mangógrills, Magnús Garðarsson eða Maggi Mangó, segir hamborgarann vera 21 cm í þvermál. Hamborgarabrauðið sé sérbakað og á borgaranum séu sex sneiðar af osti, beikoni, tómötum, lauk og iceberg. Magnús segist ekki hafa hugmynd um hitaeiningarnar sem leynist í slíkri ægimáltíð enda séu þeir hjá Mangógrilli þekktir fyrir að vera sukkarar. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, næringarfræðingur hjá Lýðheilsustöð, telur að einn risahamborgari jafnist á við fimm venjulega. Hún giskaði á að í hamborgaranum einum og sér væru um 2000 hitaeiningar og síðan bættust við franskar og gos. Hún benti á að orkuþörf konu væri 2000 hitaeiningar á dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×