Innlent

Þökkuðu fyrir björgun sjómanna

Samskip færðu Sjóbjörgunarstöð Færeyja rúmlega eina milljón króna að gjöf í hófi sem haldið var í Þórshöfn í Færeyjum til að minnast eins árs starfsafmælis skrifstofu Samskipa þar. Það var Knútur G. Hauksson, forstjóri Samskipa, sem afhenti Joen Jakob Jakobsen, formanni Sjóbjörgunarstöðvarinnar, gjöfina sem þakklætisvott fyrir þeirra þátt í björgun sjómanna af Jökulfellinu í febrúar síðastliðnum. Minnti Knútur á hversu nátengdir Færeyingar og Íslendingar væru hafinu og að þeir gerðu sér grein fyrir hættunum sem því fylgdu. Því væri afar mikilvægt að hafa góðar björgunarsveitir til sjós og lands sem hefðu á að skipa góðu fólki og væru vel tækjum búnar. Því hefðu Samskip nú um nokkurt skeið líka styrkt starfsemi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×