Innlent

Síðasti séns á morgun

Allra síðasti framtalsfrestur einstaklinga er á morgun 2. apríl. Almennur frestur til að skila skattskýrslu rann út 23. mars en þeir sem skila rafrænt gátu sótt um frest á netinu. Sá frestur var breytilegur allt frá 28. mars til 2. apríl og var það gert til að dreifa álaginu hjá ríkisskattstjóra. Rafræn vefskil komu til sögunnar 1999 og hafa skil í gegnum netið aukist ár frá ári. 86% þeirra sem skiluðu framtali í fyrra gerðu það á rafrænu formi. Í gær höfðu rúm 92 þúsund skilað skattaframtali í gegnum netið en í fyrra skiluðu tæp 130 þúsund netframtali og því ljóst að töluverður fjöldi fólks situr sveittur yfir skattaframtölum fram á laugardag. Sigurjón Högnason hjá Ríkisskattsjóra segir netframtölin hafa breytt miklu og sérstaklega hjálpi forafritun upplýsinga inn í framtalið. Segir hann að þetta tryggi betri og auðveldari skil. Þá sé hætta á mistökum mun minni og hafi dregið verulega úr kvörtunum þegar álagningaseðlar eru sendir út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×