Innlent

Hættulegasti kafli hringvegarins

Mikið grjóthrun hefur verið í Hvalnes- og Þvottárskriðum austan Hafnar í Hornafirði í vetur. Reynir Gunnarsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Höfn, segir brýnt að ráðast í framkvæmdir til að verja veginn en grjóthrunið hefur skapað stórhættu fyrir ökumenn og starfsmenn Vegagerðarinnar. "Þetta er langversti og hættulegasti vegarkaflinn á hringveginum og mesta mildi að ekki hefur hlotist stórslys af. Við hreinsum veginn reglulega og þurfum að kalla út starfsmenn á kvöldin og á nóttunni en oft lokast vegurinn vegna grjóthruns. Í vor munum við koma fyrir myndavél í Hvalnesskriðum, til að geta fylgst með ástandi vegarins, en ekki liggur fyrir hvenær ráðist verður í úrbætur þar sem fjárveitingar frá Alþingi ráða því," segir Reynir. Dæmi eru um að grjóthrun í skriðunum hafi skemmt ökutæki og segir Reynir að bifreið frá Vegagerðinni hafi orðið fyrir grjóti og valdið tjóni upp á 250 þúsund krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×