Erlent

Boston Globe átelur Íslendinga

Enn fjölgar þeim fjölmiðlum sem átelja þá ákvörðun Íslendinga að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt. Um helgina var leiðarahöfundur Washington Post gagnrýninn í garð íslenskra stjórnvalda og í gær birtist í bandaríska dagblaðinu Boston Globe pistill eftir Alex Beam, sem segir að Íslendingar hafi leikið alvarlega af sér með tiltæki sínu. Beam rifjar upp nokkur ummæli Fischers og segir kaldhæðnislegt að stjórnvöld margra ríkja myndu handtaka hann fyrir slíkt orðbragð en Bandaríkin séu ekki þar á meðal. "Fischer er ekki hetja og hann er ekki ofsóttur flóttamaður. Hann er gráðugur, stjórnsamur, veruleikafirrtur æsingamaður sem mun verða byrði á íslensku þjóðinni um ókomna tíð. Ég hugsa að Íslendingar - eða íslensku gerpin, eins og Fischer kallaði þá á sínum tíma - muni fljótlega þreytast á heiðursgesti sínum og finna einhverja ástæðu til að virða framsalssamninginn við Bandaríkjamenn og þar með snúa Bobby til sinna raunverulegu heimkynna," segir Beam í niðurlagi pistilsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×