Erlent

Kom ekki að ákvörðun um samning

Nefnd, sem rannsakað hefur hvernig staðið var að áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíu fyrir mat, komst að þeirri niðurstöðu í dag að Kofi Annan, framkvæmdastjóri samtakanna, hefði ekki komið að þeirri ákvörðun að veita svissneska fyrirtækinu Cotecna, sem sonur hans Kojo starfaði hjá, samning í tengslum við áætlunina. Annan er hins vegar gagnrýndur fyrir það í skýrslunni að hafa ekki kannað nægilega vel tengsl sonar síns við fyrirtækið. Því er auk þess haldið fram að Sameinuðu þjóðirnar hefðu átt að gera sjálfstæða rannsókn á tengslunum. Þá er Kojo Annan átalinn fyrir að hafa blekkt föður sinn varðandi fjárhagsleg tengsl sín við Cotecna en rannsókn á þeim hluta er ekki lokið. Enn fremur segir í skýrslunni að Cotecna hafi logið af almenningi, Sameinuðu þjóðunum og rannsóknarnefndinni um að Kojo hafi hætt hjá fyrirtækinu haustið 1998 en í ljós hafi komið að hann hafi þegið laun eftir þann tíma. Það var Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sem stýrði rannsókninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×