Erlent

Akajev ætlar ekki að segja af sér

Askar Akajev, forseti Mið-Asíuríkisins Kirgisistans, sem flýði land í kjölfar uppreisnar í síðustu viku segist ekki ætla að segja af sér. Í viðtali við rússneska útvarpstöð í dag lýsti hann því yfir að hann teldi sjálfan sig eina réttkjörna forseta landsins og því hefði hann ekki í hyggju að segja af sér. Akajev dvelur nú í Rússlandi, en leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Kurmanbek Bakijev, var í gær skipaður forsætisráðherra landsins á þjóðþinginu í höfuðborginni Bishkek og er hann einnig sagður staðgengill forseta. Uppreisnina í Kirgisistan má rekja til óánægju stjórnarandstöðunnar með framkvæmd þingkosninga um síðustu mánaðamót, en þar var talið að brögð hefðu verið í tafli og krafist var afsagnar Akajevs. Á fimmtudaginn var kom svo til átaka milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga í Bishkek sem lyktaði með því stjórnarandstæðingar lögðu undir sig stjórnarráðið oig forsetaskrifstofuna. Í kjölfarið flýði Akajev til Rússlands. Síðan þá hefur Hæstiréttur Kirgisistans ógilt kosningarnar og úrskurðað að þingmenn sem sátu fyrir kosningar skuli fara með völdin en ekki hið nýkjörna þing. Mjög hefur verið deilt um þá ákvörðun en í dag komust deiluaðilar að samkomulagi um að hið nýkjörna þing skyldi starfa áfram en Bakijev verður áfram forsætisráðherra. Bakijev vill halda forsetakosningar innan þriggja mánaða en þingforseti segir að ræða verði við Akajev sem ekki hafi formlega sagt af sér embætti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×