Erlent

Hvort skulfu fæturnir eða jörðin

"Ég vissi ekki hvort fæturnir á mér skulfu svona eða hvort öll jörðin lék á reiðiskjálfi," segir Birna Halldórsdóttir, sendifulltrúi Rauða Krossins í Banda Aceh í Indónesíu. Birna sat við skriftir þegar jörðin byrjaði að skjálfa en þar sem margir minni jarðskjálftar hafa átt sér stað síðan hún kom til landsins kippti hún sér ekki upp við það fyrst um sinn. "Svo þegar öryggisverðir hrópuðu á mig og sögðu mér að koma mér út stóð mér ekki á sama," segir Birna. Hún segir að mikil ringulreið hafi skapast í Banda Aceh og fólk hafi flýtt sér á farartæki sín til að vera víðs fjarri ef flóðbylgja kæmi yfir borgina líkt og í desember þegar einn þriðji íbúanna týndi lífi. Klukkustund eftir jarðskjálftann fór svo fólk að snúa til síns heima. Birna segir að þar sem hún sé hafi enginn meiðst í skjálftanum sjálfum svo best sé vitað. Einhverjir hafi þó meiðst í öngþveitinu sem skapaðist eftir að skjálftinn varð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×