Erlent

Hættuleg veira í Angóla

Nú hafa alls 122 látist af völdum svokallaðrar Marburg-veiru í Angóla í Afríku, sem svipar til ebola-veirunnar. Nú síðast lést lítið barn úr veirunni en hennar varð fyrst vart í Uige-héraði í norðurhluta landsins í október síðastliðnum og hefur hún breiðst út og m.a. greinst í höfuðborginni Lúanda. Marburg-veiran veldur miklum hita, magakveisu og uppköstum og eftir því sem hún ágerist finna sjúklingar fyrir verkjum í brjósti og í kjölfarið koma innvortis blæðingar sem geta leitt til dauða. Alls er um 130 á sjúkrahúsi í Angóla vegna veikinnar. Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar hjálparstofnanir vinna að því ásamt angólskum yfirvöldum að hefta útbreiðslu veirunnar, en hún dró m.a. hundrað tuttugu og þrjá til dauða í Vestur-Kongó á árunum 1998 til 2000. Veirunnar varð fyrst vart árið 1967 hjá starfsfólki á rannsóknarstofu í Evrópu sem hafði rannsakað apa og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru þrír fjórðu þeirra sem látist hafa af völdum veirunnar börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×