Erlent

Deilumálum um Schiavo ekki lokið

Líf Terri Schiavo fjarar út og foreldrar hennar hafa ákveðið að hætta baráttu sinni fyrir því að næringarslanga verði tengd við hana á ný. Þar með er ekki sagt að öllum deilumálum sé rutt úr vegi. Dómstólar hafa ítrekað hafnað því að næringarslangan verði tengd við Terri á ný og nú er liðin rúm vika frá því að slangan var fjarlægð. Terri er heilasködduð og nærist einungis um slönguna. Eiginmaður hennar segir hana ekki vilja lifa þannig og því var slangan fjarlægð. Mjög er dregið af Terri og víst að hún deyr innan nokkurra sólarhringa. Læknar segja þann dauðdaga ekki kvalarfullan. Foreldrar Terri hafa barist gegn þessu en þrátt fyrir að hafa leitað til fjölmargra dómstóla hefur niðurstaðan ávallt verið sú sama. Þau hafa því ákveðið að hætta baráttu sinni fyrir dómstólum. Nú er deilt um hvað gert verður við líkið af Terri eftir að hún deyr. Eiginmaðurinn, Michael Schiavo, vill að hún verði brennd og grafin í fjölskyldugrafreit Schiavo-fjölskyldunnar í Pennsylvaníu. Foreldrarnir vilja að hún hljóti útför að rómansk-kaþólskum sið og verði grafin skammt frá heimili þeirra á Flórída. Foreldrarnir bera Michael þungum sökum og segja hann ekki hafa látið sinna Terri vel þrátt fyrir að dómstólar hafi veitt honum milljón dollara til þess árið 1992. Michael Schiavo á tvö börn með konu sem hann kynntist fyrir tíu árum en hefur þrátt fyrir það ekki viljað eftirláta foreldrum Terri umönnun hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×