Erlent

Sagður íhuga að segja af sér

Kofi Annan stríðir við þunglyndi og íhugar afsögn vegna hneykslismála, að sögn breska dagblaðsins Times. Annan er sagður velta framtíð sinni fyrir sér af mikilli alvöru og nánir samstarfsmenn hans hafa áhyggjur af líðan hans, segir í grein Times. Meginástæðan er sú að í vikunni er væntanleg skýrsla um áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíu fyrir mat í Írak og aðild Kojos, sonar Annans, að hneykslismálum sem tengjast þeirri áætlun. Kojo starfaði fyrir svissneskt fyrirtæki sem hafði umsjón með áætluninni fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna. Látið er að því liggja að starf Kojod fyrir fyrirtækið sé ástæða þess að Sameinuðu þjóðirnar fengu því verkefni í Írak. Kojo er þó sagður hafa hætt störfuð áður en að þeim samningum kom auk þess sem hann starfaði að verkefnum í Nígeríu og Gana. Það hefur hins vegar vakið athygli að Kojo fékk 400 þúsund dollara í greiðslur frá fyrirtækinu en það þykir nokkuð rausnarleg upphæð miðað við starfann. Hermt er að Annan verði nú nánast að velja á milli framkvæmdastjórastarfsins og tryggðarinnar við son sinn. Það er einnig þrýstingur og herferð bandarískra íhaldsmanna sem veldur Annan hugarangri. Íhaldsmennirnir hafa sótt hart að honum að láta af embætti og bera við spillingu innan samtakanna, hneykslismála eins og kynferðisbrota friðargæsluliða og fregna sem bárust í síðustu viku af því að samtökin hefðu greitt lögfræðikostnað Benons Sevans sem var rekinn sem yfirmaður áætlunarinnar um olíu fyrir mat. Stjórnmálaskýrendur vestan hafs, sem Times ræðir við, segja allt eins líklegt að Annan segi af sér í ljósi þess að trúverðugleiki hans hafi beðið hnekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×