Innlent

Fann18 ára gamalt flöskuskeyti

Grænlenskt fótboltalið sendi flöskuskeyti frá suðurodda Grænlands fyrir átján árum. Kveðjan barst lítilli stúlku úr Kópavogi á skírdag sem fann flöskuna í fjörunni við Straumsvík. Írena Kristjánsdóttir var með pabba sínum á gangi í fjörunni við Straumsvík í Hafnarfirði þegar hún fann flöskuskeytið. Skeytið var sent frá bænum Nanortalik, sem er syðst á vesturströnd Grænlands, í október árið 1987 eða fyrir átján árum síðan. Bréfið er skrifað á grænlensku og segir þar að hópur ungmenna sem tók þátt í Grænlandsmótinu í fótbolta árið 1987 hafi sent skeytið þegar þau ferðuðust með báti frá bænum Nanortalik til annars bæjar aðeins norðar, Alliutsuppaa. Írena kveðst vilja skrifa fótboltaliðinu til baka - og helst vill hún heimsækja Grænland. Undir flöskuskeytið skrifa tíu aðilar og þar kemur fram að einn þeirra hafi verið sjö ára gamall, en sá er nú orðinn 25 ára gamall. Írena og fjölskylda hennar ætla sér að reyna að hafa uppi á einhverjum þeirra sem sendu skeytið og ætla að leita á náðir danska sendiráðsins á Íslandi og fá aðstoð við leitina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×