Erlent

Liggur banaleguna

Rainier III fursti í Mónakó liggur nú á sóttarsæng á sjúkrahúsi í furstadæmi sínu og er vart hugað líf. Í gærkvöldi var hann í öndunarvél og voru læknar fámálir um batahorfur hans. Rainier hefur verið á sjúkrahúsi síðan í byrjun mánaðarins en á þriðjudaginn elnaði honum sóttin og var hann þá fluttur á gjörgæsludeild. Börn furstans og Grace Kelly, þau Albert, Karólína og Stefanía hafa ekki vikið frá rúmstokki föður síns síðustu daga. Kirkjur í Mónakó voru fullar af fólki í gær sem bað fyrir Rainier en hann er afar vinsæll á meðal þegna sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×