Innlent

Lögreglufréttir

Tíu keyra of hratt Tíu ökumenn voru teknir á of miklum hraða á Vesturlandsvegi við Borgarnes á fimmtudag. Voru ökumennirnir á 110 til 125 kílómetra hraða. Lögreglan í Borgarnesi sagði ökumenn hafa verið rólegri í gær en umferð heldur mikla. Fá skip á sjó Alls voru 88 skip á sjó föstudaginn langa. Eru þá öll skip talin með og segir vaktmaður Tilkynningarskyldu skipa að mest muni um togarana, sem ekki er skylt að vera heima um páska eins og um jól. Rólegt í Reykjavík Fjórir gistu fangageymslur lögreglunnar í fyrrinótt. Lögreglan í Reykjavík segir að rólegt hafi verið í höfðuborginni aðfaranótt föstudags enda skemmtistöðum skylt að loka á miðnætti. Þrír stútar undir stýri Þrír ökumenn voru stöðvaðir í Keflavík aðfaranótt fimmtudags grunaðir um ölvun við akstur. Einn gisti fangageymslur vegna heimilisófriðar og einn var kærður fyrir hraðakstur á Njarðvíkurbraut í Njarðvík. Klukkan níu að morgni fimmtudags var tilkynnt um að keyrt hefði verið á kyrrstæðan bíl og ekið burt. Kom eigandi að bílnum sínum skemmdum á vinstri afturhurð. Grjóti hent í bíl Maður kastaði grjóti í rúðu bíls af gerðinni Opel Vectra og brotnaði rúðan. Stóð bíllinn fyrir utan skemmtistaðinn Paddýs á Hafnargötu í Keflavík og var lögreglan kölluð þangað klukkan hálf þrjú aðfaranótt föstudags. Tugir teknir við Blönduós Á þriðja tug ökumanna voru teknir fyrir of hraðan akstur um Húnavatnssýslurnar á fimmtudag og um fimmtán í gær. Lögreglan segir umferðina mikla en að hún hafi gengið vel. Keyra snjó í bæinn Lögreglan á Ísafirði fylgdist með skíðavikunni og rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin er þar um páskahelgina. Fjölmargir eru í bænum og segir lögreglan allt hafa farið vel fram. Grípa hafi þurft til þess ráðs að keyra snjóinn í bæinn á vörubílum svo hægt sé að leika snjóbrettakúnstir fyrir áhorfendur þar sem veðrið sé mjög gott og bærinn snjólaus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×