Erlent

Segir að kosið verði aftur

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar og fyrrverandi forsætisráðherra Kirgisistans, Kurmanbek Bakiev, lýsti því yfir að kosið yrði aftur til þings í landinu eftir að stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar höfðu lagt undir sig stjórnarráðið og höfuðstöðvar ríkissjónvarpsins í höfuðborginni Bishkek fyrr í dag. Til átaka kom á milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga í höfuðborginni í morgun þegar þúsundir mótmælenda þustu út á götur og kröfðust afsagnar forseta landsins, Aksars Akajevs, en mótmælendurnir halda því fram að svindlað hafi verið í þingkosningum sem fram fóru í febrúar og mars. Ekki liggjur ljóst fyrir hvort einhver hafi látist í átökunum en óljósar fréttir eru af því að forsetinn sé farinn úr landi og kominn til Rússlands. Yfirmaðurinn innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hvatti til myndunar þjóðstjórnar í landinu í kjölfar frétta af óeirðunum, en Bakiev, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti því yfir að komið yrði í veg fyrir styrjöld og gripdeildir í landinu. Uppreisninni í Kirgisistan þykir svipa til byltinga í tveimur öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum, Úkraínu og Georgíu. Þar voru einnig hávær mótmæli í kjölfar kosninga en þó kom ekki til átaka þar líkt og í Kirgisistan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×