Erlent

Lögðu undir sig stjórnarráðið

Mótmælendur hafa lagt undir sig stjórnarráðsbygginguna, forsetaskrifstofuna og ríkissjónvarpið í höfuðborg Kirgisistans, Bishkek, eftir átök við herlögreglu og stjórnarsinna á götum úti í morgun. Stöðugar róstur hafa verið í landinu frá því að kosningar fóru fram í síðasta mánuði, en í morgun streymdu þúsundir mótmælenda út á götur borgarinnar Bishkek og kröfðust afsagnar forsetans. Mannfjöldanum lenti saman við herlögreglu sem reyndi að gæta opinberra bygginga. Á skömmum tíma tókst mannfjöldanum þó að komast inn í þinghúsið á sama tíma og embættismenn flýðu bygginguna með aðstoð lögreglu, sem einnig lét sig hverfa. Rússneska fréttastofan Interfax segir þó að varnamálaráðherra landsins sé haldið föngnum í byggingunni. Fólkið er sagt hafa brotið rúður og veifar nú fánum út um glugga byggingarinnar og fleygir gögnum út um gluggana. Átökin brutust út í kjölfar þess að hundruð fylgjenda forsetans Askars Akajevs réðust að um 10 þúsund mótmælendum með spýtur og grjót að vopni á aðaltorgi borgarinnar fyrr í morgun. Skothvellir eru sagðir hafa heyrst og vitni segja torgið alþakið rusli og blóðslettum eftir átökin. Engar fregnir hafa enn borist af mannfalli í átökunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×