Innlent

Akureyri og Ísafjörður vinsælast

Fjöldi Íslendinga ætlar að leggja land undir fót nú um páskana. Samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands eru vinsælustu viðkomustaðir í innanlandsflugi Ísafjörður og Akureyri, en þar hefur aukaferðum verið bætt við reglubundið flug. Einnig er vel bókað á Egilsstaði. Vinsælt er að nota páskafríið og skella sér á skíði. Á Ísafirði verður haldin árleg Skíðavika, auk rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður. Ekkert skíðafæri er á aðalskíðasvæðinu í Tungudal og eru skíðalyftur þar lokaðar. Hins vegar verður skíðalyftan á Miðfellssvæði opin. Snjór er á gönguskíðasvæðinu og hefur verið ákveðið að flytja fjölskyldudagskrá Skíðavikunnar þangað. Á Akureyri, Dalvík og Siglufirði er vorfæri á skíðasvæðinu og ekki mikill snjór. Lyfturnar verða þó opnar um páskana. Mesta snjóinn verður að finna á skíðasvæði Siglfirðinga. Lokað var í Bláfjöllum í gær og útlitið er ekki gott fyrir páskana. Ef veður lægir og rignir ekki verður þó reynt að hafa eitthvað opið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×