Innlent

Síðasta græna svæðið

"Ég er óhress með að eyðileggja eigi eina græna svæðið sem er eftir hér," segir Jóhann Helgason, íbúi við Miðtún sem hefur búið þar í áratug. Hann er ósáttur við að rífa á fimleikahús Ármanns, en þar eiga að rísa fjölbýlishús. "Það er verið að eyðileggja knattspyrnuvöll sem hefur verið hér áratugum saman. Það er orðið yfirgengilegt hvað þessir stóru verktakar ná að sölsa undir sig bestu og fallegustu svæði Reykjavíkurborgar." Jóhann segir að þegar þetta græna svæði hverfur undir íbúðabyggð, sé ekkert grænt svæði eftir í hverfinu. "Þetta svæði var notað síðasta sumar af íþróttafélögum, svo gott sem í hverri viku. Landslið kvenna notaði þetta meðal annars til að æfa. Það er með ólíkindum að þeir skuli hirða þetta svæði undir íbúðablokk. Maður skilur ekki hvað er að gerast." Auk þess sem græna svæðið hverfur hefur Jóhann áhyggjur af því að umferð muni aukast í götunni, auk þess sem útsýnið sé alltaf að minnka. "Við sjáum ekkert orðið út hérna. Útsýnið er farið og við sjáum ekkert í Esjuna lengur. Ég óska bara eftir því að fólk mótmæli þessu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×