Innlent

Fær ekki flytja út dún til vinnslu

Jón Sveinsson iðnrekandi vill flytja út íslenskan æðardún til vinnslu í Lettlandi í sumar. Jón hefur flutt inn erlent vinnuafl í áratug og unnið dúninn hér en kostnaðurinn við það fer sívaxandi og vill hann því flytja efnið til fólksins eins og hann telur sig hafa rétt á eins og aðrir iðnrekendur í landinu. "Í slíku fælist einungis framför, hagræðing og aukin afköst," segir hann. Jón er búinn að finna sér húsnæði og fólk í Lettlandi til vinnslunnar en komið er í veg fyrir áform hans í nýju frumvarpi landbúnaðarráðherra. Frumvarpið er smíðað upp úr vinnu nefndar sem Jón telur að helsti keppinautur sinn, sem er stærsti æðarbóndi landsins, hafi setið í. Þar hafi hagsmunaárekstrar átt sér stað því að nefndarmenn eigi innbyrðis viðskipti og einn þeirra hafi ættingja annars nefndarmanns í vinnu. Í nefndinni voru Árni Snæbjörnsson hlunnindaráðuneytur, Jónas Helgason, formaður samtaka æðarbænda, og Sigtryggur R. Eyþórsson, forstjóri XCO, undir stjórn Ingibjargar Ólafar Vilhjálmsdóttur lögfræðings. Í frumvarpinu segir að æðardúnninn skuli meginn og veginn af dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun en það var einmitt fullhreinsunin sem Jón ætlaði að flytja til Lettlands. "Þetta hefur einfaldlega okkar mat að það sé þessari atvinnugrein til hagsbóta að óhreinsaður dúnn sé ekki fluttur úr landi áður en hann er orðinn að einhvers konar viðskiptavöru. Það er okkar skoðun að þetta frumvarp standist, þar á meðal þær samningsskuldbindingar sem við höfum undirgengist enda er ekkert verið að mismuna aðilum í viðskiptum með æðardún innanlands og utan," segir Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri. Jón veltir um 30 milljónum króna í hreinsun og útflutningi á íslenskum æðardúni og hefur um 20 prósenta markaðshlutdeild. Landsframleiðslan getur náð um þremur tonnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×