Innlent

Meiri þjónusta um páskana en áður

MYND/Sigurður Jökull
Páskahelgin sem er fram undan verður væntanlega sú síðasta sem verulega verður dregið úr þjónustu lögum samkvæmt en þó verður þjónusta á höfuðborgarsvæðinu heldur meiri nú en verið hefur. Allsherjarnefnd Alþingis mælir með því að að matvöruverslanir megi hafa opið á föstudaginn langa og páskadag , með ákveðnum skilyrðum þó, og verður frumvarp um það væntanlega lagt fram á þessu þingi og afgreittt fyrir þinglok. Breytingar í kjölfarið koma þá til framkvæmda á páskum á næsta ári. Í áliti nefndarmanna er talið að kjarasamningar verndi rétt starfsfólks til frítíma með afgerandi hætti. Núna um páskana mega apótek, bensínstöðvar, blómaverslanir, myndbandaleigur og söluturnar hafa opið alla dagana. Opið verður í Smáralind og Kringlunni á skírdag en lokað hina hátíðisdagana nema hvað kvikmyndahús og veitingastaðir í Kringlunni auk Hagkaupa verða opin á annan í páskum. 10-11 og 11-11 auk Nóatúns verða opin eins og venjulega nema á föstudaginn langa og páskadag. Mörg listasöfn verða opin, sömuleiðis Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og Vesturbæjarlaug, Laugardalslaug og Árbæjarlaug verða opnar alla dagana. Annars er nánari upplýsingar að fá á heimasíðu Höfuðborgarstofu, visit-reykjavík.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×