Innlent

Forðuðu stórtjóni í Sundahöfn

Minnstu munaði að stórtjón yrði þegar dráttarvagn, sem átti að flytja áttatíu tonna þungan rafal frá Sundahöfn upp í virkjun Orkuveitu Reykjavíkur við Nesjavelli, gaf sig þegar verið var að draga hann um hringtorgið í Sundahöfn snemma í morgun. Rafallinn toldi á vagninum og náðu starfsmenn ET flutningafyrirtækisins, með aðstoð stórra vinnuvéla og kranabíla, að flytja vagninn inn á athafnasvæði sitt við Sundahöfn þannig að þar urðu ekki frekari umferðartafir. Að sögn Einars Gíslasonar, eins eiganda ET, á vagninn að geta borið 150 tonn og er ljóst að hann hefur brostið vegna verksmiðjugalla. Starfsmenn ET vinna nú að endurbótum á vagninum og fylgjast fulltrúar tryggingafélags rafalsins með. Ef allt gengur að óskum verður rafallinn fluttur að Nesjavöllum í nótt. Að sögn Einars eiga vegirnir á leiðinn vel að þola þunga rafalsins og vagnsins því þunginn dreifist á þrettán öxla undir vagninum og eru fjögur hjól á hverjum öxli eða samtals 52 hjól auk 12 hjóla undir dráttarbílnum. Verðmæti rafalsins hleypur á hundruðum milljóna króna og afgreiðslufrestur á slíku tæki er margir mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×