Innlent

Gagnagrunnur um bíóaðsókn

Samtök myndrétthafa á Íslandi, SMÁÍS, hafa tekið í notkun nýja veflausn sem heldur utan um aðsókn í kvikmyndahús og gerir kvikmyndahúsunum kleift að vinna með hagkvæmum hætti tölfræði um aðsókn að kvikmyndum. „Með nýju upplýsingakerfi fyrir skráningu bíóaðsóknar er stigið mikilvægt skref í átt að hagkvæmari upplýsingagjöf til okkar meðlima,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS. „Kvikmyndahúsin þurfa mikið að vinna með tölfræði tengdri aðsókn og hingað til hafa þessi gögn ekki verið til miðlægt og því öll vinna með þau tímafrek. Með þessari veflausn getur hver og einn sótt á augabragði skýrslur um aðsókn á einstakar myndir eða topp 20 lista ákveðinnar viku, ákveðins árs svo dæmi séu tekin.“ Upplýsingakerfið, sem hlotið hefur nafnið „Askur“, mun innihalda allar aðsóknartölur fyrir kvikmyndir frá árinu 1995 en þá var fyrst byrjað að halda utan um aðsóknartölfræði. Dreifingaraðilar kvikmynda skrá sjálfir inn í kerfið í gegnum vefinn helstu upplýsingar um hverja mynd fyrir sig, t.d. leikara, leikstjóra, erlenda og innlenda dreifingaraðila o.s.frv., ásamt daglegum aðsóknartölum. Þá munu fjölmiðlar hafa sérstakan aðgang inn í kerfið þar sem þeir geta sótt topp 20 aðsóknarlistann hverju sinni til að birta í fjölmiðlum. Vefurinn byggir á SilverFrame.NET sem er einfalt vefumhverfi fyrir sérsmíðaðar lausnir í Microsoft .NET frá Nýherja. Einnig er notast við Reporting Services ofan á Microsoft SQL gagngrunn til að gefa notendanum einfalt og þægilegt skýrsluviðmót fyrir úrvinnslu gagna. Um er að ræða heildarlausn sem hýst er hjá Nýherja. „Nýherji hefur náð fram okkar markmiðum með hagkvæmri lausn sem byggir á einföldu notendaviðmóti, auðveldu aðgengi og gagnvirkum skýrslum,“ segir Hallgrímur. „Við eigum von á því að útvíkka enn frekar lausnina sem við erum komnir með í dag og viljum skoða hvernig stærri hluti af okkar upplýsingum geta átt heima í lausninni.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×