Innlent

Ólína verst ásökunum

Stjórn Félags framhaldsskólakennara hefur skorað á menntamálaráðuneytið að gera rækilega úttekt á framgöngu Ólínu Þorvarðardóttur, skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, gagnvart samstarfsfólki við skólann. Í bréfi félagsins til ráðuneytisins er talað um að "ógnarstjórn" ríki í skólanum. Ólína segir þetta þungar ásakanir og ærumeiðandi. Í samtali við Fréttablaðið segist hún hafa gert alvarlegar athugasemdir við framgöngu forystu Félags framhaldsskólakennara í þessu máli. "Þeir fara fram með gífuryrðum og aðdróttunum sem ég fullyrði að þeir hafi ekki gögn til að standa undir," segir Ólína. Félagið kvað hafa áréttað fyrri ásakanir í nýju bréfi til ráðuneytisins í gær. Ólína segist ætla að gefa félaginu kost á að draga ásakanirnar í sinn garð til baka. Hún áskilji sér rétt til að leita réttar síns fyrir dómstólum, á þeim grundvelli að Félag framhaldsskólakennara sé að brjóta ákvæði hegningarlaga um ærumeiðingar. "Ég hef farið þess á leit við ráðuneytið að Kennarasambandið fái ofanígjöf, eða vítur, fyrir þessa framkomu. Það má segja að þeir hafi tekið skólann í herkví," segir Ólína. Stjórn Skólameistarafélags Íslands ætlar að taka málið upp við rétta aðila eftir páska.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×