Innlent

Undrandi á endurkomu Hallgríms

Íslenskir friðargæsluliðar sem störfuðu undir Hallgrími Sigurðssyni á Kabúlflugvelli í Afganistan segjast undrandi á því að hann sé aftur kominn til starfa við flugvöllinn, nú á vegum Flugmálastjórnar. Hallgrímur er aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Flugmálastjórn og var í leyfi þaðan á meðan hann var flugvallarstjóri í Kabúl og yfirmaður alþjóðlegu friðargæslunnar þar. Þegar utanríkisráðuneytið leysti hann frá störfum, og kallaði heim fyrr en áætlað hafði verið vegna sjálfsmorðsárásarinnar í Chicken Street í Kabúl, fór Hallgrímur aftur í sitt fyrra starf hjá Flugmálastjórn. Þegar Atlantshafsbandalagið leitar síðan til Íslands eftir aðstoð við að gera úttekt á Kabúlflugvelli og gera áætlun um hvernig eigi að breyta honum úr herflugvelli í borgaralegan flugvöll, fór málið inn á borð Flugmálastjórnar sem valdi Hallgrím til starfans, ásamt öðrum. Hallgrímur mun ekki verða staðsettur í Kabúl en hann er nýkomin úr fyrstu ferð sinni til borgarinnar í þessu embætti en þar var hann ásamt Arnóri Sigurjónssyni, yfirmanni íslensku friðargæslunnar. Sverrir Haukur Grönli, sem var einn þeirra þriggja friðargæslumanna sem særðust í sjálfsmorðsárásinni í Chicken Street, segist afar undrandi á því að Hallgrímur sé aftur farin að starfa á svipuðum vettvangi fyrir íslenska ríkið. Aðrir friðargæsluliðar sem fréttastofa hefur rætt við taka í sama streng. Málið er á borði samgönguráðherra þar sem Flugmálastjórn heyrir undir hann en ekki náðist í Sturlu Böðvarsson fyrir hádegi. Svo virðist, að minnsta kosti, að málið sé komið í þennan farveg án bæði vitundar og vilja utanríkisráðuneytisins sem kallaði Hallgrím heim frá Kabúl fyrir fjórum mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×