Innlent

Portami via síðasta Skífuskífan

Síðasta platan sem kom út á vegum hinnar fornfrægu hljómplötuútgáfu Skífunnar var Portami via með Kristjáni Jóhannssyni. Í takt við almennar nafnabreytingar á fyrirtækjum hefur Skífunafnið verið aflagt og önnur tekin upp í staðinn. Móðurfyrirtækið heitir nú Dagur Group en afþreyingarsviðið Sena. Fyrsta platan undir merkjum Senu kom út í síðustu viku og geymir tónlistina úr barnasöngleiknum Ávaxtakörfunni. Skífunafnið er þó ekki aflagt með öllu, þrjár verslanir í eigu Dags Group munu áfram heita Skífan. Eiði Arnarssyni, útgáfustjóra íslenskrar tónlistar hjá Senu, telst til að um 315 plötur hafi komið út undir Skífumerkinu á þeim 22 árum sem liðin eru frá stofnun þess. Sú fyrsta var með listamanni sem nefndi sig Nicole en Eiður kann ekki nánari deili á þeirri ágætu konu. Poratmi via féll í heldur grýttan jarðveg gagnrýnenda sem sögðu Kristján langt frá sínu besta. Verður hennar því varla minnst sem tónlistarlegu afreki en hugsanlega sem síðustu plötunni sem kom út undir merki Skífunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×