Innlent

Truflun á togararalli

Togararall Hafrannsóknarstofnunar hefur orðið fyrir truflandi áhrifum af hafísnum sem legið hefur við norðanvert landið að undanförnu, að sögn Jóns Sólmundssonar fiskifræðings hjá stofnuninni. Á hverju ári leigir Hafrannsóknarstofnun fjóra togara til að toga á 560 mismunandi stöðum í kringum landið. Farið er í mars og alltaf togað á sömu togstöðum. Er þetta gert til að fylgjast með breytingum í fiskistofnum, segir Jón. Þetta árið hefur hafísinn sett strik í reikninginn og eru enn eftir um tíu prósent stöðvanna norður af Horni, frá Hala og langleiðina að Kolbeinsey. Jón segir rannsóknarskipið Bjarna Sæmundsson vera að störfum en þó ísinn hafi losnað frá landi við Hornstrandir séu togsvæðin það langt úti að þau eru enn þakin ís. Jón vonast þó til að með hagstæðum vindáttum sem nú ríkja megi takast að klára verkefnið stuttu eftir páska en togarinn Páll Pálsson verður leigður í verkið annan í páskum ef ísinn verður farinn þá. Jón telur ekki að meiriháttar kostnaður hafi hlotist af biðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×