Innlent

Dómur í Skeljungsráninu þyngdur

Hæstiréttur þyngdi í morgun um hálft ár dóm yfir Stefáni Aðalsteini Sigmundssyni fyrir Skeljungsránið svokallaða sem framið var fyrir áratug.  Þegar tvær starfskonur Skeljungs komu með peningasendingu að Íslandsbanka í Lækjargötu í febrúar árið 1995 var önnur þeirra slegin í höfuðið með slökkvitæki og peningatöskurnar hrifsaðar af þeim. Í þeim var jafnvirði sex milljóna króna. Ræningjarnir voru tveir en komust brott á bíl sem þriðji maðurinn ók. Bílnum hafði verið stolið og fannst hann skömmu síðar í innkeyrslu á Ásvallagötu. Þá fannst fatnaður ræningjanna og brunnar peningatöskur í Hvalfirði. Mennirnir fundust ekki og árin liðu. Árið 2002 gaf svo fyrrverandi sambýliskona eins þeirra, Stefáns Sigmundssonar, sig fram við lögreglu og sagði að hann hefði á sínum tíma viðurkennt fyrir sér að hafa framið ránið. Hann játaði við yfirheyrslur hjá lögreglu aðild sína að málinu í apríl á síðasta ári en fyrir dómi neitaði hann. En héraðsdómur taldi framburð sambýliskonu hans fyrrverandi og annarra vitna trúverðugan en framgöngu Stefáns fyrir dómi ekki trúverðuga og óhætt að byggja á játningu hans fyrir lögreglu. Þegar refsing var ákveðin í Héraðsdómi var tekið tillit til þess að langt er frá því að brotið var framið en Hæstiréttur þyngdi svo dóminn í tvö og hálft ár í morgun. Lögum hefur ekki verið komið yfir hina mennina tvo sem voru í félagi við Stefán. Annar þeirra er nú látinn en ekki hefur tekist að staðfesta grunsemdir varðandi þann þriðja.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×